Writings

LINEAR STRAIN / LÍNULEG AFLÖGUN
LÍNULEG AFLÖGUN
Fimmtudaginn 23. október í Gallery Bakarí á Skólavörðustíg 40.
23. október – 3. nóvember
Á sýningu Ásdísar Spanó er að finna ný verk, vatnslitamyndir og málverk unnin með blandaðri tækni. Þrátt fyrir nýja efnisnotkun er viðfangsefnið hið sama – eiginleiki og efniviður málverksins. Listamaðurinn er trúr forminu en með vatnslitamyndum sínum slær hún nýjan tón, hreinni og lífrænni.
Öll vinnsla og vinna við verkin er allt önnur. Verk Ásdísar eru ekki bein yfirfærsla á náttúruna sjálfa heldur tilfærsla á eðli málverksins og umrótið í huga listamannsins. Baráttan við óreiðuna og hinn fasta punkt sem línan – sem einkennt hefur list Ásdísar – skapar.
Ásdís Spanó þekkir listasöguna og efniviðinn. Hún er óhrædd við að horfast í augu við söguna og er trú þeim miðli og því formi sem hún hefur náð miklum tökum á í listsköpun sinni. Á sama tíma og hún dregur fram dulúð fortíðarinnar þá skapar hún brú yfir í samtímann. Með nýju efnisvali og náttúruleikanum sem í nýju verkunum birtist, er Ásdís upplýsandi og áræðin. Blýants-innskot Ásdísar á vatnslitamyndirnar fær áhorfandann til að hætta um stund að ímynda sér einhverjar raunverulegar landslagstilvísanir þar sem það eru engar beinar línur í náttúrunni.
Togstreitan og óróleikinn í verkum Ásdísar dregur áhorfandann eins og sírena á kletti en það eru línurnar og blýantsviðbótin sem heldur honum föngnum. Handbragðið og upplifun þess orkar sterkt á áhorfandann og kallar fram spurningar um það hvert línur Ásdísar eiga eftir að leiða hana í framtíðinni. Verkin segja sína sögu. Rómantíkin í málverkinu er svo óendanleg að við þurfum engan leiðarvísi.
Sigríður L. Gunnarsdóttir, MA í samtímalist